Skór, skór skór,hvað er það sem dregur athygli kvenpeningsins svona að skóm ?

Filipeyska forsetafrúin og skódrottningin Imelda Marcos átti rúmlega 2700 skópör í safninu sínu, Paris Hilton státar af yfir 2000 pörum og Christina Aguilera hefur ekki verið feimin að sýna fjölmiðlum sitt 750 para skósafn. Á meðan látum við hinar okkur dreyma um skósafn af þessari stærðargráðu og hamingjan leynir sér ekki þegar að nýtt skópar bætist í safnið.

Margoft hef ég verið spurð að því hvað það sé eiginlega við skó sem geri það að verkum að skósafnið mitt vaxi svona gríðarlega ört og standi nú í um 200 skópörum.

Ástæðan er kannski sú að skór eru ekki eins og kjólar, buxur eða annar fatnaður því að þrátt fyrir sveiflur í holdarfari og þar með fatastærðum þá eru skórnir ekki bandamenn vigtarinnar og passa þar af leiðandi alltaf á mann.

Önnur ástæða gæti verið notkunargildið en eitt skópar passar oftast við mörg mismunandi dress á meðan að erfitt er ná fram jafn mikilli notkun út úr einni tiltekinni flík.

Ég hef aldrei getað gefið einhverja eina greinargóða ástæðu fyrir þessari skó-áráttu minni en það sem hefur ávallt heillað mig við skó er hvað þeir fullkomna dressið og setja punktinn yfir i-ið hvað varðar heildar lúkkið. Fyrir mér flokkast skór ekki með aukahlutum heldur eru mjög mikilvægur partur af heildar útlitinu – ef ekki sá mikilvægasti.

ShoeJungle er síða sem hefur að geyma frumskóg af fróðleik um allt sem viðkemur skóm og skókaupum ásamt ýmsum öðrum pælingum um tísku og daglegt líf.

Síðan hefur verið í bígerð í þó nokkurn tíma en hugmyndin kviknaði þegar ég dvaldi um tíma í Los Angeles. Ég heiti Agla og er eigandi þessarar síðu en ég er 26 ára verkfræðingur og skóunnandi. 

Ég vona að skrif mín geti lífgað upp á daginn ykkar og veitt ykkur innblástur þegar kemur að því að bæta við skóskápinn ykkar.

hafa samband

Ekki hika við að senda mér ábendingar, fyrirspurnir og hvað eina sem ykkur dettur í hug á shoejungle@shoejungle.is