DEANDRI HELGA

    

Hér kemur loksins nýtt innlit eftir alltof langa pásu. Þar sem ég varð skyndilega ljósmyndaralaus þá reyndist erfiðara en ella að viðhalda innlit dálkinum. Hinsvegar, eftir nokkur góðfúsleg "kvörtunarbréf" frá lesendum ákvað ég að skella í eitt innlit þrátt fyrir að myndirnar séu ekki í eins góðum gæðum og ég hefði viljað.

Að þessu sinni fáið þið að fræðast betur um skó sem heita því skemmtilega nafni "Helga" og koma frá Deandri merkinu.

Deandri er stofnað af  Deönnu Richmond sem er 22 ára skvísa frá Los Angeles. Það er enginn smá dugnaður í þessari stelpu en þrátt fyrir ungan aldur hefur henni tekist að byggja upp Deandri vörumerkið á mjög skömmum tíma. Það er líka skemmtilegt að segja frá því að hún byrjaði að hanna föt og skartgripi og ákvað svo í ganni að prófa að hanna nokkra skó en það reyndist vera það sem kom henni endanlega á kortið. Allir skórnir frá Deandri eru frekar grófir og klunnalegir og einkennast flestir af þykkum viðarhæl. Nöfnin í skólínunni eru heldur ekki af verri endanum en þarna má finna skó sem heita t.d. "Helga" og "Olga". 

Ég fjárfesti í Deandri Helga skónum síðasta haust en þar sem LA ferðin mín frestaðist sótti ég þá ekki fyrr en núna í mars. Það voru því miklir fagnaðarfundir þegar ég fékk þetta skópar loksins í hendurnar eftir langa bið. Mér fannst ég vera að taka frekar mikla áhættu að taka skóna í hvítu en mikið er ég sátt með litavalið eftir á að hyggja - hvítur er svo sannarlega litur sumarsins í ár.

Skórnir eru virkilega vandaðir og maður tekur eftir því að það hefur verið hugsað út í öll smáatriði þegar kemur að hönnuninni. Flottir saumar á réttum stað, fallegt munstur í viðnum, flott snákamunstur innan í skónum og skemmtilegur halli á ökklanum - svo eitthvað sé nefnt.  Skórnir eru himinháir eða hvorki meira né minna en 14 cm. Á einu augabragði hækka ég því úr því að vera161 cm í 175 cm - ekki amalegt það wink

  

  

  

  

  

Deandri skórnir fást meðal annars hjá Solestruck og Karmaloop en einnig víða í litlum smáverslunum í Los Angeles, bæði í The Fashion District og einnig downtown.

Deandri skipaði stóran sess á LA fashion week núna í mars enda upprennandi merki sem er upprunnið í borginni sjálfri. Það verður gaman að fylgjast með þessum flotta hönnuði í framtíðinni enda segist Deanna vera með margt á prjónunum, bæði hvað varðar skó- og fatahönnun.

---

Kristelassa skrifaði 29.04.13 kl. 22:36

Vei eg a deandri sko og their eru ÆÐI!

---

Svana skrifaði 30.04.13 kl. 10:40

Sjúklega næs…....

---

shoejungle skrifaði 05.05.13 kl. 16:44

Já þessir eru æði.. ég ætla að kíkja í Deandri stúdíóið í næstu LA ferð smile

---
innlit

Hér verða birt regluleg innlit í skemmtilega skóskápa.

Fyrstu innlitin verða í skósafn síðueiganda en með tímanum mun dálkurinn fara í útrás og gægjast inn í skóskápa hjá fleiri skóunnendum.