DEANDRI HELGA

    

Hér kemur loksins nýtt innlit eftir alltof langa pásu. Þar sem ég varð skyndilega ljósmyndaralaus þá reyndist erfiðara en ella að viðhalda innlit dálkinum. Hinsvegar, eftir nokkur góðfúsleg "kvörtunarbréf" frá lesendum ákvað ég að skella í eitt innlit þrátt fyrir að myndirnar séu ekki í eins góðum gæðum og ég hefði viljað.

Að þessu sinni fáið þið að fræðast betur um skó sem heita því skemmtilega nafni "Helga" og koma frá Deandri merkinu.

Deandri er stofnað af  Deönnu Richmond sem er 22 ára skvísa frá Los Angeles. Það er enginn smá dugnaður í þessari stelpu en þrátt fyrir ungan aldur hefur henni tekist að byggja upp Deandri vörumerkið á mjög skömmum tíma. Það er líka skemmtilegt að segja frá því að hún byrjaði að hanna föt og skartgripi og ákvað svo í ganni að prófa að hanna nokkra skó en það reyndist vera það sem kom henni endanlega á kortið. Allir skórnir frá Deandri eru frekar grófir og klunnalegir og einkennast flestir af þykkum viðarhæl. Nöfnin í skólínunni eru heldur ekki af verri endanum en þarna má finna skó sem heita t.d. "Helga" og "Olga". 

Ég fjárfesti í Deandri Helga skónum síðasta haust en þar sem LA ferðin mín frestaðist sótti ég þá ekki fyrr en núna í mars. Það voru því miklir fagnaðarfundir þegar ég fékk þetta skópar loksins í hendurnar eftir langa bið. Mér fannst ég vera að taka frekar mikla áhættu að taka skóna í hvítu en mikið er ég sátt með litavalið eftir á að hyggja - hvítur er svo sannarlega litur sumarsins í ár.

Skórnir eru virkilega vandaðir og maður tekur eftir því að það hefur verið hugsað út í öll smáatriði þegar kemur að hönnuninni. Flottir saumar á réttum stað, fallegt munstur í viðnum, flott snákamunstur innan í skónum og skemmtilegur halli á ökklanum - svo eitthvað sé nefnt.  Skórnir eru himinháir eða hvorki meira né minna en 14 cm. Á einu augabragði hækka ég því úr því að vera161 cm í 175 cm - ekki amalegt það wink

  

  

  

  

  

Deandri skórnir fást meðal annars hjá Solestruck og Karmaloop en einnig víða í litlum smáverslunum í Los Angeles, bæði í The Fashion District og einnig downtown.

Deandri skipaði stóran sess á LA fashion week núna í mars enda upprennandi merki sem er upprunnið í borginni sjálfri. Það verður gaman að fylgjast með þessum flotta hönnuði í framtíðinni enda segist Deanna vera með margt á prjónunum, bæði hvað varðar skó- og fatahönnun.

BAKERS REVOLT WEDGE SNEAKERS

        

Revolt Wedge Sneakers frá Bakers Shoes fá að hreiðra um sig í innlitinu að þessu sinni.

Ég hef áður talað um Bakers Shoes sem er ein af mínum uppáhalds skóbúðum í Bandaríkjunum. Búðin býður upp á hin ýmsu merki, til að mynda Jessica Simpson, H by Halston, Chinese Laundry, Luichini, Wild Pair og fleiri tegundir ásamt skóm undir sínu eigin merki. Baker Shoes býður ekki aðeins upp á flotta skó á sanngjörnu verði heldur þurfa starfsmenn að gangast undir mjög strangt skvísupróf til að hjóta inngöngu í starfsmannahópinn - það mætti í það minnsta halda það miðað við ofurpæjurnar sem taka á móti manni þegar maður heimsækir verslanirnar.

Ég hef undanfarið haft áhyggjur af Bakers þar sem fyrirtækið hefur átt í miklum fjárhagserfiðleikum. Fyrsta merkið um erfiðleikana var þegar að Bakers seldi frá sér Wild Pair brandið undir lok síðasta árs. Ég var frekar gáttuð á tímasetningunni á þeirri sölu þar sem Wild Pair merkið er á mjög hraðri uppleið og hefur dregið athygli mikla athygli að sér. Wild Pair brandið er í raun ein af ástæðum þess að ég fór að gefa Bakers versluninni gaum. Nýlega bárust svo fréttir af því að fyrirtækið hefði tekið ávörðun um að loka fjölmörgum verslunum vítt og breitt um Bandaríkin og selja þær til skórisans Aldo. Ég vona innilega að þetta afli fyrirtækinu nógu mikið lausafé til að leysa úr fjárhagskröggunum því ekki viljum við missa Bakers Shoes. Skemmtileg búð með skemmtilegu úrvali.

Þessa skó sem um ræðir hér keypti ég í byrjun sumars á heimasíðu Bakers Shoes þegar þeir voru nýkomnir í sölu. Á þeim tíma var ég búin að rökræða mikið þetta wedge sneakers trend við sjálfan mig en mér finnst alls ekki allir þess háttar skór flottir. Það þarf lítið útaf að bregða til að þeir verði druslulegir eða of glamúrlegir. Ég hinsvegar féll fyrir þessum fljótlega eftir fyrstu sýn og mig langaði líka svo að prófa skó úr smiðju Bakers. Ég hef oft keypt önnur vörumerki frá Bakers en aldrei Bakers merkið sjálft. Þessir skór eru búnir að koma mjög skemmtiega á óvart en ég er búin að nota þá talsvert meira en mig grunaði. Áður en ég fékk skóna í hendurnar hafði ég miklar áhyggjur af því að það myndi ekkert passa við þá en það fyndna er að þeir passa við ótrúlegustu dress. Það er sennilega líka vegna strigaskó-tískubylgjunnar sem gerir það að verkum að manni finnst strigaskór ganga við allt.

  

  

  

  

  

Nokkur skemmtileg review um skóna frá Bakers vefversluninni:

"This sneaker wedge is hot! Comfortable, great price and right on trend."

"These are so comfy and so stylish without trying too hard! i thought it would be hard to find outfits to wear with these, but they are so easy to wear. I cant wait for the fall, to pair these with leggins and sweaters and textured tights smile"

""Absolutely love these! So glad I purchased them. Practical yet stylish, sure to be a trend setting item!"

"I recently went to a concert in New York City and wanted to ensure I was comfortable although stylish and these wedge sneakers helped me accomplish both. I danced all night with no foot pain at the end of the night. Highly recommend these sneakers!"

WILD PAIR LAURA

     

Innlitið að þessu sinni er í boði Wild Pair. Þetta tiltekna skópar heitir Wild Pair Laura.

Wild Pair merkið hefur verið til í 40 ár og var nýlega selt frá Bakers Shoes yfir til Steve Madden fyrir  hvorki meira né minna en 4 milljónir dollara. Ég kynntist Wild Pair í Los Angeles og er mikill aðdáandi og dyggur viðskiptavinur enda á ég núna þrenn skópör frá þeim. Wild Pair skórnir eru óvenjulegir og hönnuðirnir  hugsa greinilega út fyrir boxið þegar þeir brainstorma fyrir nýjum hugmyndum. Það er líka viss “wow” factor sem fylgir skóm frá þeim og ef þú vilt að skórnir þínir skeri sig úr flórunni þá er þetta hin fullkomna búð fyrir skókaup.

Wild Pair leggur einnig mjög mikið upp úr þjónustuupplifun því um leið og þú kemur inn í verslanir þeirra þá tekur starfsmaður á móti þér sem er þér innan handar ef þú vilt máta skó eða spyrja einhverja spurninga. Á sama tíma er þetta ekki óþolandi sölumaður sem hangir yfir þér og hættir ekki að atast í þér nema þú kaupir skó af honum. Þetta er einhvernveginn hinn gullni meðalvegur – hver einasti viðskiptavinur skiptir máli og mikið er lagt upp úr persónulegri þjónustu.

Þetta skópar bættist í safnið mitt í desember sl. og var keypt í “kveðjuferðinni” minni í mollið mitt – Glendale Galleria í Los Angeles, rétt áður en við fluttum aftur heim á klakann. Hvílík paradís sem Los Angeles er fyrir skóunnendur, ég hlakka til að fara þangað aftur og skóa mig upp fyrir næsta árið!

Þessir skór eru einstaklega skemmtilegir í laginu og virkilega flottir á fæti. Ekki skemmir fyrir að þeir hækka lágvaxnar stúlkur um 15 sentimetra – eitthvað sem mér finnst ekki leiðinlegt þegar ég er mikið innan um hávaxið fólk (einhverra hluta vegna eru flestir strákar sem ég þekki að meðaltali 1,90 m á hæð). Skórnir eru úr ekta rússkinni og eru með háan platform. Æðislegir skór frá skemmtilegu merki - mæli með að skóunnendur kynni sér Wild Pair fyrir næstu Bandaríkjaferð.

  

    

  

  

  

JEFFREY CAMPBELL ADDISON

     

Uppáhalds skórnir mínir um þessar mundir fá að prýða innlitið að þessu sinni.

Skórnir heita Jeffrey Campbell Addison og bættust í skósafnið mitt núna í sumar. Þeir eru keyptir á Solestruck heimasíðunni sem afgreiddi málin hratt og vel eins og alltaf. Þessir skór eru ólýsanlega þægilegir og líta enn betur út í "eigin persónu" heldur en á myndum.

Ég var minnt á það enn og aftur í sumar að maður á alltaf að fylgja eigin sannfæringu þegar kemur að því að velja sér föt/skó. Þegar JC Addison komu út varð ég strax alveg veik fyrir þeim enda mjög öðruvísi og skemmtileg útgáfa af "stretch" ökklastígvélunum. Mér fannst þeir samt sem áður örlítið klunnalegir og leitaði mér því ráða hjá tískufróðum vinkonum mínum áður en ég tók endalega ákvörðun um kaup. Vinkonur mínar ráðlögðu mér allar frá því að kaupa mér skóna og það varð því úr. Skórnir voru samt alltaf að poppa upp í hugann annað slagið.

Þegar Solestruck setti upp smá útsölu í byrjun sumars og skórnir lækkuðu um 30% í verði ákvað ég að láta til skarar skríða og viti menn - skórnir urðu uppáhalds frá fyrstu sýn og mátun. Frænka mín og systir mín voru með mér þegar ég fékk skóna og hakan á þeim báðum féll niður á gólf þegar við opnuðum kassann - það er í raun ótrúlegt hvað þessir skór eru flottir live. Allar vinkonru mínar sem réðu mér frá kaupunum átu ráðleggingarnar sínar tilbaka og hrifust strax af skónum ásamt ótal mörgum ókunnugum sem hafa stoppað mig og spurt um skóna.

Endrum og eins lendir maður auðvitað í því að taka slæmar ákvarðanir í skókaupum. Eitthvað sem maður kannski áttar sig á strax við heimkomu eða nokkrum dögum síðar. Það er samt langoftast best að fylgja innsæinu sínu. Hefði ég keypt Addison skóna strax þá ætti ég sennilega 2 þannig pör í dag þar sem ég hefði örugglega bætt þeim vínrauðu við þegar þeir duttu á útsölu ; ) 

     

     

     

     

     

     

    

 

 

Jeffrey Campbell Skates

     

Skates skórnir frá Jeffrey Campbell eiga heiðurinn af fyrsta innlitinu hér á ShoeJungle síðunni.

Þessir skór bættust í skósafn síðueiganda í júní 2011 þegar ég splæsti þessum skóm á mig í afmælisgjöf. Skórnir eru úr leðri og viði og eru að sjálfsögðu mjög þægilegir eins og allir skór úr smiðju Jeffrey Campbell.

Það merkilega við þessa skó eru hrósin sem þessir skór hafa fengið frá hinu kyninu. Ég hef aldrei upplifað það að strákar taki sérstaklega eftir skófatnaði hjá kvenfólki en þegar ég fór í fyrsta skiptið út í þessum skóm á sólríkum degi í Los Angeles var ég stoppuð af þremur piltum sem vildu ólmir vita hvar ég hafði keypt skóna. Þeim fyrsta var mikið í mun að geta splæst svona pari á kærustuna sína, næsti var á ferð með kærustunni sinni og tók eftir skónum á undan henni (what?) og stoppaði mig svo hann gæti verið viss um að kærastan tæki eftir skónum. Sá þriðji vildi svo fá að koma við viðinn í skónum og sagðist aldrei hafa séð mikilfenglegri skó - hann fór grínlaust niður á hnén til að koma við skóna. Mjög athyglisvert allt saman.

Þar sem viðurinn er óvarinn (ekki lakkaður eða neitt slíkt) hef ég ekki viljað nota þessa skó mikið á Íslandi enda alla veðra von á nær öllum stundum. Þeir hafa því fengið góðan sess uppi á hillu inni í stofu og vakið upp margar skemmtilegar samræður -  hjá strákum jafnt sem stelpum!

 

        

        

        

      

Innlit

Hér verða birt regluleg innlit í skemmtilega skóskápa.

Fyrstu innlitin verða í skósafn síðueiganda en með tímanum mun dálkurinn fara í útrás og gægjast inn í skóskápa hjá fleiri skóunnendum.