Stærðarvandamál

Skóstærðir á milli skómerkja geta verið mjög mismunandi og oftar en ekki  stendur maður frammi fyrir því að vera á milli stærða í draumaskónum. Þá er það spurningin – er betra að taka of litla eða of stóra skó ? Þrátt fyrir að stundum sé hægt að bjarga síðari kostinum með innleggjum eða fyllingu til að líma innan í hælinn þá er mín reynsla sú að maður fer að ganga upp úr skónum innan tíðar, sérstaklega ef um er að ræða opna skó. Ég mæli því frekar með því að taka skóna aðeins minni og nota eftirfarandi ráð til að víkka skóna. Hinsvegar skal taka það fram að ráðin virka ekki eins vel á gerviefni.

 

Þykkir sokkar

Einfalt og fljótlegt ráð til að víkka skó er að fara í þykka sokka og reyna að troða sér í skóna og ganga um á þeim í nokkrar mínútur eða þar til sársaukinn fer að segja til sín. Gott er að endurtaka leikinn nokkrum sinnum og þá ættu skórnir að hafa gefið eftir. Þetta ráð virkar hinsvegar eingöngu ef sú stækkun sem þörf er á er smávægileg.

Ef um leðurskó er að ræða er jafnvel hægt að nota hárblásara á þrengsta svæðið í um hálfa mínútu. Eftir að slökkt hefur verið á hárblásaranum skal samt sem áður vera í skónum þar til efnið hefur kólnað. Gott er að bera áburð á leðrið eftir þessa meðferð þar sem hitinn þurrkar upp leðrið.

 

Eðlisfræðilausnin

Eðlisfræðin virðist þvælast fyrir ansi mörgum nemendum en skóunnendur hafa getað nýtt sér eitt af þekktari lögmálum eðlisfræðinnar til að leysa hið algenga vandamál að vera á milli stærða í skóm. Þetta ráð virkar best á leðurskó en virkar stundum einnig á skó úr gervileðri. Fylla skal tvo sterka plastpoka af vatni, loka þeim vel og koma þeim fyrir í sitthvorum skónum. Pokinn þarf að fylla vel upp í skóna, frá tá til hæls. Næst skal setja skóna í frystinn ( helst í poka svo þeir blotni ekki mikið að utan) og leyfa þeim að vera þar yfir nótt eða þar til vatnið í pokunum frýs. Þegar vatnið frýs þenjast vatnspokarnir út og þrýsta leðrinu út og stækka þannig skóna. Því næst skal taka skóna úr frystinum og þeyfa þeim að þiðna í um 30 mínútur áður en pokarnir eru teknir úr skónum. Athugið að mjög mikivægt er að láta vatnið þiðna áður en reynt er að fjarlægja pokana svo pokarnir rifni ekki.

Ekki er mælt með því að nota þetta ráð á mjög dýra skó þar sem slysin geta alltaf gerst – pokarnir geta rifnað eða lekið og valdið vatnsskemmdum á viðkvæmu leðri.

 

Stækkunarsprey

Enn eitt ráðið til að stækka leðurskó er að kaupa sérstakt skósprey sem þenur út leður. Efninu er spreyjað á það svæði sem þarfnast víkkunar og því næst er farið í skóna og beðið þar til spreyið þornar. Flest sprey eru þannig gerð að það má bera þau bæði utan á og innan í skóna þrátt fyrir að mér finnist persónulega öruggast að spreyja innan í skóna. Til að hámarka árangur má einnig fara í þykka sokka áður en farið er í skóna. Þetta ráð er hægt að endurtaka þar til réttri stærð er náð. Það sprey sem hefur reynst mér best er þetta hérna.

Hér er svo uppskrift af heimatilbúnu spreyi: Blanda skal vatni og spritti í jöfnum hlutföllum í spreybrúsa og spreyja á skóna, klæða sig í þá og bíða þar til lausnin hefur þornað (gott er að bíða í a.m.k. 20 mínútur). Einnig er hægt að nudda sprittinu óblönduðu á skóna með bómul og fara þá strax í skóna þar sem sprittið þornar mjög fljótt.

 

Tréstækkari

Tréstækkari virkar best á leðurskó en honum er stungið inn í skóna og breiddin og lengdin á honum stillt eftir þörfum. Tréstækkara má meðal annars finna á Amazon.  Mjög sniðugt er að nota tréstækkarann samtímis stækkunarspreyi.

 

Blaut dagblöð

Fylla skal skóna með rökum dagblöðum en jafnframt skal gæta að því að lögunin á skónum aflagist ekki, því skal frekar setja minna en meira af dagblöðum. Blöðin eru látin liggja í skónum yfir nótt eða þar til dagblöðin hafa þornað. Ekki er mælt með því að láta dagblöðin liggja í skónum í marga daga.