Meðhöndlun

Hér má finna ráð úr ýmsum áttum til að hámarka endingartíma á skóm.
Ef þið hafið ábendingar um fleiri góð ráð, endilega sendið tölvupóst á póstfangið  shoejungle@shoejungle.is.


Leðurskór

Séu leðurskór ekki meðhöndlaðir rétt geta þeir þornað upp og hreinlega  dottið í sundur. Mikilvægt er að þrífa þá reglulega ásamt því að halda þeim nærðum og vel vörðum.

Gott er að velja skóáburð sem inniheldur einnig næringu fyrir leðrið og slá þannig tvær flugur í einu höggi.

Spreyja skal leðurskó með vatnshrindandi efni á veturna og í blautu veðri en þetta eykur endingu til muna.

Í raun er gott að hafa það sem reglu að setja bæði næringu (skóáburð) og  vatnshrindandi efni á leðurskó áður en þeir eru notaðir í fyrsta sinn. Þetta sparar tíma í viðhald og hreingerningu á skónum í framtíðinni.

Ef leðurskór blotna ber að skipta um skó við fyrsta tækifæri. Það fer mjög illa með leðrið að ganga í skónum blautum.

Ekki nota hárblásara á blauta leðurskó – nema ætlunin sé að minnka þá um ½ - 1 númer!

Blettum og nuddförum má ná af leðurskóm með því að nudda örlitlu tannkremi (ekki geltannkremi) á blettina og nudda af með rökum klút. Gott er að bera síðan skóáburð á skóna.

Ekki er mælt með því að vera í sömu leðurskónum tvo daga í röð þar sem leðurskór þurfa hvíld á milli hverrar notkunnar.

 

Rússkinnsskór

Til að rússkinnið haldist fallegt er gott að bursta rússkinnið vikulega með þar til gerðum rússkinnsbursta eða mjúkum tannbursta. Bursta skal skóna með hringlaga hreyfingum til að ýfa rússkinnið upp.

Spreyja skal rússkinsskó reglulega með vatnshrindandi efni til að hámarka endingartíma. Þetta er sennilega mikilvægasta ráðið til að halda rússkinsskóm fallegum. Gott er að spreyja skóna og leyfa efninu að virka yfir nótt áður en skórnir eru notaðir.

Rússkinns-strokleður eða „suede eraser“ er mjög sniðugt til að þrífa bletti af rússkinnsskóm. Mikilvægt er að skórnir séu þurrir þegar strokleðrið er notað. Gott er að byrja á því að bursta rússkinnið í eina átt (í eina átt?) til að auðveldara sé að ná blettinum burt. Strokleðrinu er því næst nuddað varlega á blettinn  en strokleðrið brýtur blettinn upp í agnir sem falla við það af rússkinninu.Þegar blettinum hefur verið náð af er gott að bursta skóna með rússkinnsbursta eða tannbursta með hringlaga hreyfingum. Einnig má nota venjulegt strokleður til að ná blettum af rússkinni með framangreindum leiðbeiningum.


Almennt

Hælaskór koma oftar en ekki með plast töppum á hælunum sem eyðast mjög fljótt upp. Sniðugt ráð er að fara strax með skóna til skósmiðs og biðja hann að setja gúmmítappa á skóna sem endast talsvert lengur en plast tapparnir.

Til að liðka upp rennilása á skóm er sniðugt að nudda blýi (t.d. með blýanti) á báðar hliðarnar á rennilásnum.

Alltaf skal nota skóhorn til að fara í stígvél. Þetta hljómar sem mjög sjálfgefin ráðlegging en staðreyndin er sú að skemmdir á stuðningssvæðinu aftan við hælinn eru mjög algengar og eru nær undantekningarlaust vegna þess að stelpur nenna ekki að teygja sig í skóhornið þegar þær fara í stígvél.

Mjög mikilvægt er að skipta um tappa á hælaskóm áður en tappinn eyðist alveg til að koma í veg fyrir að neðri hluti hælsins eyðileggist.  (Ég veit ekki hversu oft ég hef trassað að skipta um tappa á skónum mínum og endað með því að eyðileggja þá.)

Að strá örlítið af matarsóda í skóna getur gert kraftaverk þegar kemur að vondri lykt uppúr skóm. Gott er að láta matarsódann liggja í skónum yfir nótt. Athuga þarf að skórnir séu ekki blautir þegar matarsódanum er stráð í skóna.

Aldrei setja skó í þvottavél. Best er að nota raka tusku og edik til að þvo skó.

Gott er að setja dagblöð í blauta skó til að viðhalda upprunalegri lögun og flýta fyrir þornun. Strigaskór geta t.d. aflagast mjög þegar þeir blotna og eru látnir þorna tómir.

Háhælaðir skór með opinni tá geta valdið blöðrum og sárindum á tánnum þegar að fóturinn rennur fram í skónum. Gott er að setja lítið gelinnlegg við tábergið í skónum til að hindra að fóturinn renni fram og þar með að tærnar nuddist við opið fremst í skónum. Gelinnleggið dregur einnig úr óþægindum og eykur úthald á hælum fyrir þreytta fætur.Dæmi um þessi gelinnlegg finna hér á Amazon.

Sumir skór eru þannig hannaðir að þrátt fyrir að þeir smellpassi á fæturna þá gengur maður einhverra hluta vegna upp úr þeim. Lausnin á þessu vandamáli eru hælagrip sem eru límd innan í hælana á skónum. Þau hælagrip sem ég nota mest eru þessi hérna.

Eins freistandi og það er að ofnota nýja upáhalds skóparið þá er ekki ráðlagt að vera í sömu skónum í marga daga í röð. Ef skórnir fá ekki a.m.k. sólarhring til að anda og falla saman í rétta lögun á milli hverrar notkunar er líklegra að vond lykt festist í skónum og að skórnir aflagist. Skór úr gerviefnum eiga það sérstaklega til að lykta illa en þetta ráð fyrirbyggir það að einhverju leyti.

Annað augljóst ráð er að geyma skóna ekki í hrúgum. Ég þekki það af eigin reynslu að þetta er sennilega fljótlegasta leiðin til að eyðileggja fallega skó.

Gott er að bera vaselín á svæði innan í skónum sem valda óþægindum. Við það mýkjast skórnir upp og særindi minnka.

Góð regla er að spreyja öll ný skópör með vatnshrindandi efni sama þó skórnir séu úr gerviefnum.  Efnið skaðar allavega ekki skóna þó það virki misvel á skó úr gerviefnum.

Gott er að setja uppblásna standa eða harðan pappa inn í há stígvél til að viðhalda upphaflegri lögun og minnka krumpur á ökklasvæðinu. Krumpurnar festast oftar en ekki í efninu og valda því að skórnir eru ekki nærri því eins fallegir á fæti.

Skór á ferðalögum geymast best í þar til gerðum skópokum (dust bags, shoe bags). Þetta fer bæði betur með skóna og kemur í veg fyrir að óhreinindi á skónum smitist út í annan fatnað sem er ferðatöskunni.

Að lokum er hér dæmi um heimatilbúinn skóáburð: Blandið saman sítrónusafa og ólífuolíu í hlutföllunum 1:2 (t.d. 1 bolli af sítrónusafi og 2 bollar af ólífuolíu). Bleytið eitt horn af hreinni tusku með blöndunni og nuddið á skóna. Leyfið að liggja á skónum í nokkrar mínútur og nuddið svo skóna vel með hreinnni tusku.