STÆRSTA SKÓDEILD Í HEIMI

Bandaríska verslunarkeðjan Macy‘s opnaði í dag (30. ágúst) stærstu skódeild í heimi í búð sinni á Manhattan í New York. Deildin er rúmlega 3.600 fermetrar og hefur til sölu yfir 280.000 skópör.

Stærð deildarinnar gæti virkað fráhrindandi fyrir einhverja skóunnendur en Macy‘s hefur þvert á móti lagt mikið upp úr því að hámarka upplifun viðskiptavina og tryggja gæði þjónustu. Opnun deildarinnar, sem er hluti af stærstu fjárfestingu sem fyrirtækið hefur lagt í frá upphafi, hefur í för með sér ráðningu 430 starfsmanna sem munu hafa það eina verkefni að stjana í kringum skókaupendur. Hver og einn starfsmaður verður vopnaður iPod Touch til að einfalda samskipti milli starfsmanna, flýta fyrir fyrirspurnum af lager og taka á móti greiðslum. Þetta tryggir aukna skilvirkni í kaupferlinu ásamt því að starfsmaðurinn þarf aldrei að víkja frá viðskiptavininum.

Viðskiptavinir geta einnig sótt sérstakt Macy‘s app sem leiðir þá í gegnum deildina. Miðað við stærð deildarinnar þá er þetta app sennilega hið mesta þarfaþing. Þá geta viðskiptavinir lagt frá sér innkaupapokana í miðju deildarinnar og bragðað á jarðarberjum og kampavíni.

Forstjóri Macy‘s segir nýju skódeildina vera lið í því að framfylgja stefnu fyrirtækisins, sem felst í því að tryggja endurkomu viðskiptavina. „The most direct route to a woman‘s heart is often through shoes. Loyalty starts with the shoe department. Once you get a woman in a shoe, it‘s over.“


Svo sannarlega orð að sönnu.

---
Frumskógareigandi

Síðueigandi er menntaður rekstrarverkfræðingur, fæddur skóunnandi og stoltur eigandi 200 skópara.