SÆLU SUNNUDAGUR

Það kannast eflaust margir við mánudagsdrungann fræga sem herjar á stærsta hluta landsmanna á þessum fyrsta virka degi vikunnar. Ég veit ekki hvers vegna en ég hef aldrei upplifað þennan drunga. Auðvitað væri maður nú stundum til í einn aukadag í helgina en ég hef hinsvegar aldrei upplifað þetta sem leiðinlegasta dag vikunnar.

Við systurnar ræddum þetta um helgina og komumst að því að við deilum ákveðnum sunnudagsleiða - eins fáránlega og það hljómar. Ég veit ekki hvað það er við sunnudaga því þetta er nú frídagur og oftast nýttur í afslöppun og kósý stundir. Kannski er þetta stórborgarbarnið í mér sem þolir ekki dvalann sem leggst yfir Reykjavíkina á sunnudögum (ég fæddist klárlega á röngum stað því ég þrífst lang best í eril og borgum sem aldrei sofa). 

Það var þó erfitt að kvarta yfir sunnudeginum í gær sem var yndislegur í alla staði. Dagurinn byrjaði á dýrindis brunch hjá ömmu og þar á eftir tók við verslunarleiðangur með litlu systur. Við hjúin skelltum okkur svo á jólatónleika hjá Baggalúti sem voru ólýsanlega skemmtilegir! Ekki skemmdi fyrir að Laddi mætti á svæðið í banastuði og tók "Snjókorn Falla" fyrir áhorfendur og kom þar með hverju einasta mannsbarni í húsinu í jólaskap. Eftir að Baggalútsmenn höfðu verið klappaðir upp hljóp Laddi í súperman skikkju inn á sviðið og tók gamla góða "Súperman" lagið við mikinn fögnuð viðstaddra. Það þarf vart að taka það fram að ég spratt á fætur og tók allar hreyfingarnar með herra Ladda - enda var þetta lag í miklu uppáhaldi hjá mér á mínum yngri árum.

Skórnir sem ég nældi mér í á harðahlaupum í Amsterdam voru vígðir á tónleikunum. Skórnir eru úr H&M og eru skemmtileg blanda af glæra og t-strap trendinu. Mér finnst þeir mjög frumlegir og sé marga möguleika í þeim - t.d. að fara í skemmtilega litaða sokka eða sokkabuxur við eins og ég gerði í gær.

Nýjasti varaliturinn í safninu setti punktinn yfir i-ið - "Up the amp" frá MAC.

  

  

Eftir tónleikana var haldið á Laugarveginn og borðað góðan mat og tekið örstutt rölt í kuldanum þangað til við gáfumst upp fyrir kuldabola.

Ef allir sunnudagar væru svona yndislegir þá myndi þessi sunnudagsleiði kannski heyra sögunni til wink

---
Frumskógareigandi

Síðueigandi er menntaður rekstrarverkfræðingur, fæddur skóunnandi og stoltur eigandi 200 skópara.