REBECCA MINKOFF SAMPLE SALE

Það skemmtilegasta sem ég geri þegar ég er stödd í New York er að vakna og halda út í daginn með nákvæmlega ekkert plan. Láta daginn gerast, ramba inn á skemmtilega New York stemningu og upplifa eitthvað óvænt.

Þannig var hugarfarið mitt þegar ég var stöd í stóra eplinu fyrir stuttu síðan. Ég var nýbúin að sjóða visa kortið mitt í Boston skömmu áður og þurfti því ekkert að stressa mig á neinum innkaupum. Ég var með tvö markmið fyrir ferðina - að fá mér Starbucks frappuccino og gera heiðarlega tilraun til að heimsækja Messeca stúdíóið.

Frappó markmiðið var í auðveldari kantinum þar sem Starbucks er á öðru hverju götuhorni í NY. Ég var því komin með frappó í hendurnar örfáum mínútum eftir að ég labbaði út af hótelinu og ákvað í ganni mínu að athuga á google maps hversu langt ég væri frá Messeca stúdíóinu. Google tilkynnti mér að ég ætti um 30 mínútna göngu fyrir höndum sem ég mér leist nokkuð vel á.

Það gerðist tvennt mjög skemmtilegt á leiðinni í stúdíóið - það fyrra fær að að vera umfjöllunarefnið í þessu bloggi smile

  

Nokkrum mínútum og hálfum frappó eftir að ég lagði af stað frá Starbucks rek ég augun í rauðan dregil og kaðla sem liggja að verslunarhúsnæði sem er framundan á götunni. Ég gef aðeins í gönguhraðann þar til ég sé það sem bíður mín blasa við mér í allri sinni dýrð:

  

Ójá - ég fékk ekki aðeins að vera ein af þeim fyrstu sem fékk að sjá samstarf H&M og Isabel Marant - ég var líka svo heppin að ramba inn á sample sale hjá Rebeccu Minkoff!

Það var ævintýri út af fyrir sig að fara þarna inn. Ég þurfti að setja töskuna mína og frappóinn í geymslu í anddyrinu áður en ég hélt inn í dýragarðinn sem þessi sample sale var. Hálfberar stelpur hvert sem ég leit að máta hinar og þessar flíkur, búnar að hamstra heilu fatahrúgurnar til að kaupa. Hrúgur af veskjum og skóm í stöflum á hríðlækkuðu verði, músíkin í botni og jakkafataklædd vöðvabúnt í hverju horni til að passa að enginn fingralangur kæmist í feitt.

Ég leit yfir fötin og sá margar mjög fallegar flíkur en ég er víst eins og ég er og var því komin að skódeildinni innan nokkurra mínútna. Allir hælaskór voru á $50 sem er hlægilegt verð fyrir skó frá þetta virtum hönnuði. Ég endaði á því að kaupa mér tvenn gullfalleg pör sem eru kannski ekki alveg í takt við veðrið sem geysar úti akkúrat núna.

  

 

Ég er jafnvel að spá í að gefa skít í þessar mínusgráður og skella mér í grænu skónum á jólafögnuð í vinnunni á föstudagskvöldið. Hallóóó frosnar tær! 

  

  

Fyrir utan það að gera góð kaup fannst mér þetta alveg stórskemmtileg upplifun. Hefði viljað smella nokkrum myndum af hysterísku stelpunum sem hoppuðu um salinn á g-strengjunum að hamstra föt en þá hefði ég eflaut ekki verið vinsæl hjá jakkafataklæddu vöðvabúntunum. 

Ef einhverjir hönnunarþyrstir lesendur verða staddir í New York í desembermánuði þá veit ég um tvær aðrar sample sales sem verða haldnar á þessum sama stað:

Alice & Olivia 10-15 desember næstkomandi.

Joie, 17-22 desember næstkomandi.

Sample sale upplifunin var mjög óvænt ánægja þrátt fyrir að frappóinn minn hafi verið alveg bráðnaður þegar ég sótti hann í geymsluna að þessu ævintýri loknu.

Ég held áfram með söguna af göngutúrnum mínum að Messeca stúdíóinu næst wink 

---
Frumskógareigandi

Síðueigandi er menntaður rekstrarverkfræðingur, fæddur skóunnandi og stoltur eigandi 200 skópara.