PALEO PITSA

Það hafa eflaust margir heyrt um hina víðfrægu LKL blómkálspitsu. LKL æðið er gjörsamlega búið að heltaka landann en þetta mataræði snýst að mestu leyti um að sleppa einföldum kolvetnum og sykri en innbyrða þess í stað meira af fitu.

Við vinkonurnar höfum hinsvegar verið að fikra okkur áfram með Paleo mataræðið síðan um áramótin sem er að mörgu leyti svipað og LKL en einnig að mörgu leyti ólíkt. Paleo mataræði byggir í raun á matarvenjum steinaldarmannsins, áður en landbúnaður kom til sögunnar. Paleo snýst því í meginatriðum um að borða kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, hnetur, egg og fræ. Stóri munurinn á LKL og Paleo eru því mjólkurvörurnar sem í raun er neytt í miklu mæli í LKL en ekki neitt á Paleo. Ég hef mjög góða reynslu af Paleo og get hiklaust mælt með þessu mataræði en ég reyni núna að halda mig við uþb. 70-80% Paleo mataræði. Bara það að draga úr neyslu sykurs, mjólkur og hveitis hefur gjörbreytt minni líðan, orku og matarvenjum (verð t.a.m. ekki sársvöng lengur og ekki alltof södd). 

Svo ég komi mér aftur að efninu, þá var ég spennt fyrir einhverskonar hveitilausri pitsu en þótti ostamagnið í LKL pitsunni alltof mikið. Botninn í þessari pitsu er í raun 50/50 blómkál og ostur - sú uppskrift sem ég fékk frá vinnufélögunum miðaði við 7,5 dl af osti á móti 7,5 dl af blómkáli. Ég hafði heyrt um það að maður gæti notað möndlumjöl í stað ostsins fyrir þá sem vilja takmarka neyslu á mjólkurvörum og ákvað ég því að prófa mig áfram og heimfæra þessa LKL pitsu yfir á Paleo mataraæðið.

Útkoman var ótrúlega góð og matargestirnir mínir um helgina voru ekkert lítið sáttir með þessa fínu pitsu: 

Hér er uppskriftin fyrir áhugasama en hún er fyrir sirka 5 manns:

Einn blómkálshaus
5 dl möndlumjöl
6 egg
1-2 msk olía
Salt, pipar, ítalskt krydd og önnur krydd að vild

Blómkálshausinn er fínsaxaður í matvinnsluvél og öllu síðan blandað saman í skál. Setjið bökunarpappír á ofnplötu (magnið í þessari uppskrift er fyrir tvær plötur) og smyrjið pappírinn með örlítilli olíu áður en deigið er sett á. Bakið í 15-20 mínútur við 200° og takið svo plöturnar út og setjið áleggið á. Pitsunum er svo skellt aftur inn í ofn í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður. 

Ég mæli með litlum osti, nóg af parmaskinku og hrúgu af ruccola sem áleggi - ótrúlega gott!

---

Kristbjörg Tinna Ásbjörnsdóttir skrifaði 10.05.13 kl. 11:32

Ég er svo spennt að prófa!! En heldurðu að það sé hægt að nota bara eggjahvítur í pizzuna?

---

Agla skrifaði 14.05.13 kl. 9:53

Það var einhver sem spurði um það á uppskriftasíðunni en hún sagði að deigið héldist þá ekki eins vel saman. En hví myndiru vilja það - eggjarauða er súperfæði skv. nýlegustu rannsóknum wink

---
Frumskógareigandi

Síðueigandi er menntaður rekstrarverkfræðingur, fæddur skóunnandi og stoltur eigandi 200 skópara.