FASHION NIGHT OUT

Það má með sanni segja að helgin hafi byrjað vel en ég fékk svona líka skemmtilegan glaðning í lok vikunnar:

   

Umgjörðin í kringum tískusýninguna var með því flottara sem ég hef séð en sýningin var haldin á 19. hæð í turninum í Höfðatorgi. Hæðin samanstendur af risastóru fokheldu rými með gólfsíðum gluggum allan hringinn - fullkominn staður fyrir tískusýningu. Það þarf vart að taka það fram að útsýnið er með ólíkindum en ljós Reykjavíkurborgar fylla rýmið með ljósadýrð úr öllum áttum. Ljósashowið á sýningunni, tónlistin og fjölbreytt fyrirsætuval settu punktinn hressilega yfir i-ið.

  

  

Eftir skemmtilega sýningu var ferðinni haldið í eftirpartý í Gamla Bíói þar sem við tóku æðislegir tónleikar með Ásgeiri Trausta ásamt annarri skemmtun fyrir augað (fallegir skór í hverju horni).

Tónlist, tíska og vel valinn félagsskapur er svo sannarlega uppskrift að fullkomnu laugardagskvöldi.

Solestruck lookbook fall/winter 2012

Nýtt lookbook frá Solestruck var að detta í hús. Lookbookið ber heitið "Come Inside".

"As the days grow shorter and the morning air more crisp, we take it indoors for an overview of our favorite Fall/Winter staples. COME INSIDE features our favorite seasonal items, with hand picked styles with the chilly season in mind. Regardless of wheter you are putting together a look for a holiday party, winter outings, or simple holiday shoping - we have you covered"

Allir skórnir á myndunum eru til sölu á Solestruck vefsíðunni. Þarna má t.d. sjá Miista stívélin sem heiðruðu skó vikunnar síðustu vikuna smile

Ég fjárfesti nýlega í skónum sem má sjá á mynd nr 3 - enn ein gersemin úr smiðju Jeffrey Campbell. 

FASHION OF FRIENDS

Eitt af fjölmörgu sem ég er þakklát fyrir í lífinu er þáttaröðin FRIENDS (hljómar yfirborðskennt en þetta er dagsatt). Þetta eru einfaldlega bestu, langfyndnustu, skemmtilegustu og hjartnæmustu þættir allra tíma. Flestir eiga auðvelt  með að tengja við einhvern af karakterunum og persónusköpunin er sú besta sem ég ef nokkurn tíman séð í sitcom þáttaröðum ("hlæjuþáttum"). Þættirnir eru jafnframt raunverulega fyndnir, það fyndnir að ég hlæ enn uppátt að þeim. Þættirnir eru einnig svo skemmtilega tímalausir að það er ekkert mál að horfa á þá margoft (eina sem breytist á milli ára er fatatískan og stærðin á raftækjunum).

Ég er það mikill aðdáandi að FRIENDS er oft í gangi þegar ég er heima í kósý og oftar en ekki sofna ég yfir þáttunum á kvöldin. Seríurnar rúlla því í DVD spilaranum hver á eftir annarri og líkast til hef ég farið a.m.k. 20-30 seríuhringi um ævina. Þetta er það slæmt að ef þú nefnir setningu úr FRIENDS við mig þá get ég umsvifalaust sagt þér í hvaða senu setningin kemur fram í. Það þarf líka vart að taka það fram að ég er ósigruð í FRIENDS spilinu wink

Svo að ég komi mér að efninu þá er FRIENDS mér það kært að ég get ekki horft á lokaþáttinn – ég hef sennilega einu sinni horft á hann og það geri ég aldrei aftur. Oftast hætti ég meira að segja á þriðja síðasta þættinum því mér finnst kveðjupartýið hennar Rachel eiginlega of erfitt áhorfs. En núna á dögunum fórum við semsagt eins langt og við treystum okkur í 10. seríu og því er 1. sería búin að vera í gangi síðustu daga mér til mikillar skemmtunar. Ég man þegar ég var að horfa í fyrstu skiptin á 1. seríu og hugsaði með mér hvað tískan væri hrikalega asnaleg og hallærisleg. Í síðustu 2-3 skipti sem ég hef hoft á seríuna hef ég hinsvegar skipt um skoðun - skemmtilegt dæmi um hvað tískan gengur í hringi. Tískan í fyrstu tveimur seríunum af FRIENDS er alveg keimlík þeirri tísku sem hefur verið í gangi á síðastliðnu ári og það er ótrúlega gaman að spotta út hvað það er margt líkt í gangi þrátt fyrir að það séu tæp 20 ár hér á milli.

Sumar af myndunum hér að neðan eru snapshot af youtube, afsakið léleg gæði.

  

  

  

  

  

Ég gjörsamlega elska pilsið sem Rachel er í á síðustu tveimur myndunum. Myndirnar sýna því miður ekki hvað pilsið er sjúklega flott en áhugasamir geta séð það betur í fyrsta þætti annarrar seríu eða hér . Ég gerði dauðaleit að svona pilsi/kjól í Bandaríkjunum síðasta sumar, fann sambærilegan kjól á Lulu's vefsíðunni og náði ótrúlegt en satt að tryggja mér síðasta eintakið.

Síðan sveif ég á bleiku skýi þar til ég fékk email um það að kjóllinn væri því miður "out of stock". Mér tókst af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að panta hann þrátt fyrir að þeir ættu hann ekki til - hvílík vonbrigði. Sem betur fer bættu þeir mér svekkelsið með gjafabréfi smile

 

BOOTS

Fyrsti vetrardagur mætir á klakann eftir einungis 4 daga. Skv. kuldaskræfunni mér er veturinn reyndar löngu löngu kominn með sínu næturfrosti og dimmu kvöldum. Því er kominn tími til að hætta í afneitun og þar með hætta að skoða eingöngu háhælaða sumarskó. Stígvél - já takk!

F21 eru alltaf með góðar og ódýrar lausnir og þar sem þeir eru með svo hratt turnover á vörunum sínum eru þeir oftar en ekki með nýjustu trendin alveg á hreinu:

   

   

   

Bakers Shoes eru u.þ.b. einum klassa ofar hvað varðar gæði en þeir bjóða líka upp á ýmis skemmtileg merki eins og Wild Pair, Jessica Simpson og H by Halston.

   

   

  

Ég er ekki viss um að ég muni taka gömlu góðu kúrekastígvélin aftur í sátt fyrir þennan vetur þrátt fyrir að þau rauðglói á mörgum trendmælum. 

Ef maður slysast svo inn á Solestruck þá er maður komin nálægt toppinum á gæðaskalanum. Gæðin endurspeglast líka í hærra verði og því stendur valið oft á tíðum á milli 2-3 para af  F21 skóm eða vel völdu pari af Solestruck. Það versta við það er að valið er lang erfiðast þegar að á Solestruck síðuna er komið wink

   

   

   

   

Þá er bara að hefja verslunarleiðangurinn!

SOLESTRUCK SAMPLE SALE

Vávává hvað ég hefði verið til í að vera stödd í höfuðstöðvum Solestruck fyrirtækisins í Portland, Oregon fyrir viku síðan!

Þar fór fram svokölluð "sample sale" þar sem öll heitustu merki sem seld eru á Solestruck síðunni stóðu kaupendum til boða á hlægilegu verði. Allir skórnir voru á bilinu $20-$100 og þar mátti finna merki eins og t.d. Jeffrey Campbell, Senso, All Caps, Matiko ofl ofl.

Ég hefði verið mætt fyrst í röðina (jafnvel þótt ég hefði þurft að tjalda þarna fyrir utan í 2 daga), verið búin að finna út í hvaða horni mína stærð væri að finna (stærð 6) og tekið með mér aðstoðarmann sem ég hefði hrúgað skópörunum á, hverju á fætur öðru. Mögulega hefði ég svo blikkað aðstoðarmanninn til að gefa mér eins og hálfa hrúguna í jólagjöf wink

FISHNET

Skóunnendur þurfa líka að spá í sokkum - fallegir sokkar geta lífgað svo hressilega upp á annars venjulega skó.

Ekki hefði ég trúað því að ég mér myndi einhverntímann finnast fishnet trendið flott. Þegar ég hugsa um fishnet sokka og sokkabuxur þá sé ég ósjálfrátt fyrir mér rauðu hverfin í Amsterdam og víðar í Evrópu. Hinsvegar hafa fishnhet ökklasokkarnir einhvernveginn náð brjóta sér leið inn á cravings listann minn. Fishnet sokkar eru hreinlega mjög smart við hælaskó!

  

Ég er búin að gera dauðaleit að flottum fishnet sokkum hérna á klakanum. Ef einhver veit hvar svona sokka má finna hér á landi, endilega látið mig vita.

Það var ekki erfitt að hafa upp á slíkum sokkum í bandarísku netverslununum góðu - ég fann svona sokka t.d. í F21 og American Apparel. Held ég kippi American Apparel sokkunum með mér heim frá Boston í nóvember ef leitin hér heima ber ekki árangur:

FYI - stúlkan á myndinni er ekki nakin eins og ég hélt við fyrstu sýn - hún er í húðlituðu bodysuit-i. En hér er einmitt dæmi um ímyndina á fishnet fatnaði - afhverju er stelpan látin sitja fyrir hálfnakin í kynþokkafullri pósu þegar verið er að taka mynd fyrir fishnet sokka ?

    

  

  

Hnéháu fishnet sokkarnir frá Free People (hér beint fyrir ofan til vinstri) eru fyrir lengra komna ; )

Hvernig leggst þetta trend í mannskapinn ?

 

JC ROLLERSKATES ?

Sannleikurinn.com færði nýlega þær fregnir að mannanafnanefnd hefði hisst í eftirpartý nú á dögunum og bannað nafnið Sigrún. Ég held að hönnuðirnir hjá Jeffrey Campbell hljóti að hafa verið í sama eftirpartýi þegar þeir hönnuðu nýjustu skóna frá JC. Ég allavega skellti upp úr þegar ég opnaði Solestruck síðuna á sunnudagsmorgun og sá nýjustu JC sendinguna:

  

 

Ætli hönnuðirnir hafi sótt innblástur í börnin sem eru á fleygiferð í strigaskónum sínum sem eru með hjól í hælnum ? Eða ætli þeir hafi verið með fortíðarþrá í gömlu góðu hjólaskautana... ég held ég eigi mína ennþá einhversstaðar smile

  

Þessir skór bera allavega nafn með rentu - Jeffrey Campbell Go Fast!

SKÓR EN EKKI SKÓR II

Við eignuðumst marga góða vini á meðan við bjuggum í LA sem munu fylgja okkur um ókomin ár. Jason, einn af mínum bestu vinum frá LA gaf mér ótrúlega skemmtilega kveðjugjöf þegar við fluttum til Íslands síðustu jól: 

Gjöfin hafði að sjálfsögðu eitthvað með skó að gera! Það er magnað hvað það er gjörsamlega allt til í Bandaríkjunum : ) 

GIVENCHY

Ég get ekki hætt að hugsa um þessi fallegu ökklastígvél frá Givency, þótt ég hafi engan veginn efni á þeim:

  

  

Finnst þetta skópar hér frá Givenchy líka virkilega flott:

  

Ekki oft sem ég segi þetta en nú væri gott að finna góða eftirlíkingu þar sem Givenchy skór kosta u.þ.b. jafn mikið og 6-7 pör af Jeffrey Campbell skóm!

SKÓ GÖTUTÍSKA

Í svona rigningarveðri er fátt betra en að demba sér í margmennið í Smáralind og skoða skóflóruna hjá gestum og gangandi.

Við smelltum myndum af nokkrum skvísum sem völdu sér skemmtilega skó á þessum fína laugardegi. Sú fyrsta sem við mættum var í JC Homg og var meira að segja með aðra JC í innkaupapokanum. Ferlega leist mér vel á hana wink 

Fengum að smella mynd af outfittinu hennar líka því hún var svo smart:

  

Afgreiðsludaman í Bossa Nova var í skemmtilegum skóm frá Neosens:

Þessir skór fást í Bossa Nova og eru líka til í fjólublá-bleikum.

  

Fleiri skór sem urðu á vegi okkar má sjá hér að neðan. Hér má sjá skó frá Kron Kron, GS og Corner.

  

  

Afgreiðsludaman í Focus var í fallegum og klassískum Billi Bi stígvélum úr GS. Hún hafði keypt sér þetta metalskraut einnig í GS og hægt er að nota það á ýmsa vegu með ökklastígvélum - ótrúlega sniðugt.

  

Inni í Zöru mættum við svakalega hressum skvísum sem allar voru í mismunandi lituðum Converse skóm. Við urðum að smella mynd af þessum föngulega hóp:

  

Ein af vinkonunum hafði skilið Converse skóna sína eftir heima en hún fékk samt líka mynd af sínum skóm:

  

Dagurinn hófst með mynd af skóm úr smiðju JC og því var vel við hæfi að enda á sömu nótum. Afgreiðsluskvísan í Levis var í JC Alexa skónum góðu og ég er nokkuð viss um að hún hafi verið í peysu úr American Apparel:

  

Ein frekar sátt með afrakstur dagsins:

  

Skemmtilegur dagur að baki - vonandi endurtökum við svona dag fljótlega : )

BRING ME TO HELL

Vinsældir JC Lita skóna hafa vart farið fram hjá neinum eins og áður hefur verið rætt um hér á ShoeJungle. Í hverjum einasta stúlknavinahóp leynist a.m.k. eitt Lita par (hvort sem um er að ræða original útgáfu frá JC eða eftirlíkingu).

Í byrjun árs 2012 fór svo að bera á stærri, trylltari og fríkaðri útgáfu af Lita skónum sem reyndust koma frá svo til nýju og óþekktu merki að nafni UNIF. Fyrrverandi  Hollywood plötusnúðurinn Eric Espinoza og tískubloggarinn Christine Lai eru fólkið á bakvið UNIF og hanna þau bæði fatnað og skó undir merkjum þess. Þau sækja sér innblástur í tónlist og menningu og það er skemmtilega drungalegur  „grunge“ fílíngur yfir vörunum þeirra.

  

  

Það sem kom UNIF einna mest á kortið eru klárlega skórnir sem um ræðir hér - UNIF Hellbound. Skórnir taka Lita skóna skrefinu lengra með hærri hæl, þremur settum af reimum til að auka notkunargildið og grófara lúkki. Heitar umræður spruttu víða upp á tískubloggum þar sem tískuspekúlantar báru saman Lita og Hellbound skóna í smáatriðum og skiptust í fylkingar með hvoru merkinu fyrir sig. Dyggir aðdáendur JC vildu meina að UNIF skórnir færu yfir velsæmismörk og væru of háir og fríkaðir. Stuðningsmenn UNIF staðhæfðu hinsvegar að UNIF hefðu valtað yfir JC með þessum skemmtilega viðsnúningi á Lita æðinu og að JC menn gætu allt eins pakkað saman. Enn aðrir fögnuðu komu UNIF og vildu meina að Lita og Hellbound væru það ólíkir að það væri vel hægt að eiga þá báða. Skemmtilegt allt saman smile

Hönnuðir Jeffrey Campbell sýndu þó fljótt að þeir eru ekki fæddir í gær. Ný og endurbætt útgáfa af Lita skónum leit dagsins ljós fljótlega eftir innrásina frá UNIF og JC Big Lita hlammaði sér inn í allar helstu netverslanir skóunnenda. Skórnir eru augljóslega litaðir af UNIF straumunum en halda samt fáguðu heildarútliti og klassískum stíl.

  

Mér hefur langað í UNIF Hellbound frá því í byrjun árs en bældi alltaf löngunina niður því mér fannst þeir of líkir Lita ásamt því að ég hélt að ég yrði komin með leið á ofurháum platform hælum þegar líða tæki á árið 2012. Aftur á móti langar mig meira og meira í þessa skó eftir því sem líður á árið og er því orðin viss um það að ég tilheyri minnihlutahópnum sem elskar bæði Lita og Hellbound. Ég held ég taki þá endanlegu ákvörðun um að grípa þessa með mér frá Boston í næsta mánuði – og verð þ.a.l. hærri en maðurinn minn þegar í skóna er komið yes

JÓLABÓKAFLÓÐIÐ

Þar sem ég hef verið í skóla nær allt mitt líf hefur lítill tími gefist fyrir yndislestur. Ég hef samt haft það fyrir venju að setja a.m.k. eina bók á jóla-óskalistann minn. Það var ekki erfitt að velja bókina sem fer á óskalistann þetta árið:

Það eru til alls kyns erlendar bækur um skó sem ég hef haft mjög gaman af að glugga í. Þess vegna var ég mjög glöð að sjá að það er komin skóbók á íslensku - algjört þarfaþing fyrir íslenska skóunnendur. Hlakka til að liggja upp í sófa í jólafríinu með heitt kakó og þessa bók!

GAGA DRESS

Lady Gaga tók ekki af sér nornahattinn á meðan að á Íslandsdvöl hennar stóð en hann var á höfði hennar við komuna til landsins og á meðan að á athöfninni stóð í Hörpu.

Þegar hún tók við friðarverðlaununum frá Yoko Ono var hún klædd í skósíðan Saint Laurent Paris kjól en kjóllin var hannaður af Hedi Slimane sem gekk nýlega til liðs við SLP. Mér tókst einnig að finna mynd af henni þar sem glittir í skóna wink

   

Himinháir platform pinnahælar eins og við var að búast af poppdrottningunni. Hún fær 5 stjörnur frá mér fyrir þetta lúkk - klassískt en samt GAGA keimur af því.

GAGALAND

Síðastliðið föstudagskvöld snæddi ég dýrindis kvöldverð með vinnufélögunum á Vox á Nordica. Mikið gaman og enn meira hlegið - gott kvöld í alla staði. Þá hafði frétt þess efnis að Lady Gaga myndi mæta á sama hótel nokkrum dögum seinna eitthvað farið framhjá mér.

Drottningin átti að hafa lent á Reykjavíkurflugvelli kl 7 í kvöld og stigið þar út úr einkaþotu sinni á gegnvotan rauðan dregil sem starfsmenn Reykjavíkurflugvallar báru upp að vélinni. Nú vilja fjölmiðlar hinsvegar meina að Gaga hafi leikið á þá og að þetta hafi verið staðgengill söngkonunnar. Sé það rétt þá sannast það hér með að hún kann aldeilis á þennan bransa - helmingi meiri fjölmiðlaumfjöllun og landsmenn enn spenntari yfir því hvenær, hvernig og hvaðan daman mætir á klakann. Ætli hún komi á fljótandi ísjaka ?

Lady Gaga er einn af mestu skófrumkvöðlum undanfarinna ára. Fyrst um sinn var ég hálf hneyksluð á látalátunum í henni en ég féll á endanum fyrir þessari stórbrotnu og vægast sagt stórundarlegu manneskju.

  

  

    

Ég hef nokkrum sinnum staðhæft að ég muni aldrei ganga í hinum og þessum skóm en eftir að hafa margafsannað þær staðhæfingar er ég hætt að segja nokkuð þegar ég hneykslast á nýrri furðulegri tísku, sér í lagi tísku sem Gaga kemur af stað. Vá hvað mig verkjaði í tærnar þegar hún valsaði um í Alexander MqQueen Armadillo skónum í myndbandinu við Bad Romance. Þegar hún mætti svo í hællausu skónum á viðburð í New York í maí 2010 ólguðu netheimarnir og fólk hneykslaðist yfir þessum "forljótu" skóm sem ekki væri hægt að ganga á.

Það er því frekar fyndið að opna allar helstu skóvefverslanirnar í dag og þetta tekur á móti manni:

    

    

    

Sá hlær best sem síðast hlær smile

FENDI

Það vill oft verða þannig að þegar ég er heima hjá mér þá er sjónvarpið mitt stillt á Fashion TV - hvort sem einhver er að horfa eða ekki. Sérstaklega á svona skemmtilegum tímum í tískuheiminum, þegar að tískuvikurnar ryðja sér til rúms, hver á fætur annarri. Tískusýningar frá tískuvikunum rúlla nær allan sólarhringinn á Fashion TV þessa dagana og ég reyni því að zooma inn og skoða skóna sérstaklega vel.

Skórnir í sumarlínu Fendi fyrir 2013, sem eru unnir í samstarfi við Nicholas Kirkwood, eru gjörsamlega æðislegir. Myndirnar fyrir neðan eru teknar á tískuvikunni í Mílanó nú á dögunum.

  

  

      

    

Er það bara ég eða er pínu Kron Kron fílíngur á ferðinni hér ?

Michael Antonio

Michael Antonio Footwear Group er skófyrirtæki sem var stofnað árið 1985 í Los Angeles sem lítið fjölskyldufyrirtæki (hljómar þetta kunnuglega ?)

Ég fékk að heyra það í morgun frá stelpu sem vinnur með mér að það væri ekkert skrýtið að skóáráttan mín hefði náð hæstu hæðum í Los Angeles. Hún var sjálf að koma úr fríi þaðan og sá fallega skó á góðu verði hvert sem hún leit. Það er kannski ekkert skrýtið miðað við öll þessi stóru skófyrirtæki sem hafa sprottið upp í kringum þessa borg – Jeffrey Campbell, Michael Antonio, Chinese Laundry og fleiri.
Michael Antonio framleiðir virkilega fallega skó og má sjá nokkur dæmi hér að neðan en allir neðangreindir skór fast hjá Nasty Gal. Ég er gjörsamlega að missa mig yfir þessum þrískipta hæl - ótrúlega flottur!

  

  

  

  

Meira litaúrval og örlítið lægra verð má finna ef verslað er beint í gegnum Michael Antonio síðuna. Einnig hefur Shop Akira endrum og eins verið með skó frá Michael Antonio.

Forstjóri Michael Antonio Footwear Group er Michael Su en fyrirækið var stofnað af föður hans. Fyrirtækið notar marskonar skemmtilega tækni við vöruþróun og markaðssetningu og valdi t.d. 6 konur úr viðskiptavinahópi sínum til að vera talsmenn vörumerkisins. Fyrirtækið byrjaði á því að velja 12 konur á aldrinum 18-35 ára úr stórum hópi umsækjenda og leyfði viðskiptavinum sínum svo að velja þessar 6 dömur í gegnum kosningu á heimasíðu þeirra. Þessar konur eru t.d. nýttar í auglýsingar og lookbook á vegum fyrirtækisins. Skv. Michael er viðskiptavinahópur fyrirtækisins mjög breiður og samanstendur af konum með mismunandi laun, áhugamál, tískustefnu og lífsstíl. Því fannst þeim betra að fara þá leið að velja þessar 6 talskonur úr viðskiptavinahópnum frekar en að notast við módel sem hafa ekki eins raunveruleg tengsl við vöruna.

Það að nota raunverulega viðskiptavini til að markaðssetja vöruna finnst mér mjög frumlegt og frábært framtak. Dyggir viðskiptavinir þekkja vöruna svo sannarlega langbest og hafa ástríðu fyrir því að taka þátt í kynningu á henni.

Ég hlakka mjög til að eignast fyrsta Michael Antonio parið mitt til að sjá hvort þeir standist væntingar. Nasty Gal valdi klárlega flottustu skóna til að setja í sölu hjá sér og því mun valið standa á milli skóna hér að ofan. Valið verður erfitt en ég er strax búin að þrengja það niður í skó með þessum þrískipta hæl - þá stendur valið á milli þessara fjögurra sem eftir standa. Hvaða skó myndir þú velja ?

KARDASHIAN KRAZYNESS

Einn af fylgifiskunum við að búa í Bandaríkjunum eru stórgóðar líkur á því að sogast inn í reality TV heiminn. Bandarískar sjónvarpsstöðvar keppast við það að finna upp á nýjum raunveruleikaþáttum og þarna spretta þeir upp, hver öðrum klikkaðri. Mitt "guilty pleasure" er raunveruleikaþáttur Kardashian fjölskyldunnar - Keeping up with the Kardashians.

Fyrst og fremst hef ég gaman af því að fylgjast með fatavali þeirra systra og þá sérstaklega þeirrar elstu (Kourtney) sem er ein af þeim tískugúrúum sem ég hef einna mest gaman af að fylgjast með.

    

  

    

    

Hér fyrir neðan má sjá myndir af mér á spjalli við Kardashian systurnar Khloe og Kourtney í The Grove mollinu rétt fyrir jólin í fyrra. Ég átti dágott spjall við þær, sérstaklega við Kourtney sem sagði mér allt um það hvaðan hún sækir sér innblástur í klæðnaði.

   

Kourtney er mjög smart dama að mínu mati. Hún líka veigrar sér ekkert við að versla í ódýru búðunum eins og HM og F21 jafnt sem merkjabúðunum þrátt fyrir að vera moldrík. Hún heldur reglulega uppboð á Ebay á fötunum sínum og lætur ágóðann renna til góðgermála og þar má finna föt á öllum verðskalanum. Hún hefur sérstakt dálæti á HM og hefur oft nefnt það í bloggunum sínum.

Ég hef saknað "style" blogganna hennar síðasta árið þar sem hún ól sitt annað barn í júlí og hefur ekki verið eins iðinn við skrifin. Hún kynnti þó nýtt útlit á blogginu sínu núna nýlega og þýðir það sennilega að hún muni halda áfram þar sem frá var horfið smile

NÝTT Á SÍÐUNNI

Splunkunýtt innlit og skór vikunnar! 

Fullt af nýjum og gómsætum bloggum sem bíða birtingar, það myndaðist smá blogg-biðröð um helgina þar sem að ég fékk helgarheimsókn frá einni vel valdri.

Þegar maður á mömmu sem býr hinumegin á landinu þá verða þessar helgarheimsóknir ansi dýrmætar.

Vefstjórinn vildi svo tilkynna ykkur að verið sé að vinna að umbótum á flettingarkerfinu á síðunni. Í millitíðinni er hægt að skoða gamalt efni með því að kíkja í fréttasafn hér til hægri. Vona að þetta valdi ekki miklum óþægindum smile

 

Frumskógareigandi

Síðueigandi er menntaður rekstrarverkfræðingur, fæddur skóunnandi og stoltur eigandi 200 skópara.

Speki

"Good shoes take you good places"
-Seo Min Hyun

Instagram

#shoejungleis

ShoeJungle mælir með

Facebook